Hvít Jól lógó

  

Jólapakki saman

  

 

marita logo

  

IOGT - int logo

  

logo ACTIVE

 

Æskan

Tæpum tveimur árum eftir stofnun Góðtemplarareglunnar hér á landi stofnaði Björn Pálsson ljósmyndari fyrstu unglingastúkuna, Æskuna nr.1, þann 9. maí 1886

Verndarstúkur Æskunnar voru frá byrjun stúkan Verðandi nr. 9 og stúkan Einingin nr.14. Lögðu þær til gæslumenn og störfuðu þeir tveir í senn eða skiptust á að stjórna fundunum. Á fyrstu árum Æskunnar voru gæslumenn Indriði Bjarnason, Gestur Pálsson, Magnús Sakaríasson og Borgþór Jósefsson. Eins og að líkum lætur hafa margir gengt starfi gæslumanns frá upphafi.

Fljótlega fjölgaði félögum stúkunnar. Árið 1900 voru þeir 108, 1910 voru þeir 315, 1929 voru þeir 486, 1943 voru þeir 500, 1959 voru þeir 288. Langt árabil voru félagar milli 2-300. Á síðari árum hefur félögum fækkað aftur. Fundirnir voru haldnir vikulega. Þeir hófust í október en enduðu í maí. Haustið 1897 var fundarstaður stúkunnar Góðtemplarahúsið, Gúttó. Þegar Templarahöllin var tekin í notkun 1968 voru fundir haldnir hálfsmánaðarlega.

Á fundum var ýmislegt til skemmtunar, svo sem upplestur, leikþættir, söngur, hljóðfærasláttur, leikir, spurningaþættir o.fl. Snemma var farið að kjósa skemmtinefnd úr hópi barnanna. Þau vöndust því fljótt að koma fram. Börnin tóku vel siðastarfinu og héldu yfirleitt vel sín heit að neyta hvorki áfengis né tóbaks eða spila um peninga eða fjármuni.

Að loknu vetrastarfi fóru gæslumenn venjulega í eitthvert ferðalag og voru það góð lok á fundastarfinu. Guðmundur pálsson var virkur félagi í stúkunni um langt skeið áður en hann varð gæslumaður. Hann fór í frægt ferðalag með tíu stúlkubörn á aldrinum 10 til 15 ára 1937. Guðmundur segir frá þessari för í lítilli bók sem kom á prenti sama ár. Titill hennar er: Ferðasaga leikflokks bst. Æskunnar nr. 1 í júní 1937. Farareyris var aflað með happdrættismiðum, sem seldust vel. Börnin höfðu æft 8 leikþætti og auk þes voru á skemmtiskrá  gamanvísur, söngur, upplestur og hljóðfæraleikur.

Í templarahöllinni var sá háttur hafður á að halda annars vegar fundi með siðum og hins vegar skemmtifundi. Gæslumenn fengu fólk úr ýmsum starfstéttum til að koma í heimsókn, til þess hafa valist leikari, flugfreyja, hjúkrunarkona, íþróttamaður, sjónvarpsfréttamaður, lögregluþjónn, slökkviðsmaður og borgarstjórinn kom einnig í heimsókn. Á skemmtifundum hafa verið dansæfingar, leikir, grímuball, kvikmyndasýningar, bingó og félagsvist. Veitt voru verðlaun fyrir góða fundarsókn. Einkunn voru félagar heiðraðir með gjöfum á merkisafmælum stúkunnar.

Þegar Æskan var 40 ára 1926 var haldin barnaguðþjónusta í Dómkirkjunni. Síðar um daginn var haldin hátíðarfundur í Góðtemplarahúsinu. Svo vildi til að afmælisdagurinn var á sunnudegi. Gæslumenn voru þá Stefán H. Stefánsson og Kristmundur Þorleifsson.
Á 60 ára afmæli stúkunnar 1946 voru gæslumenn Anna O. Hinriksdóttir og Jón F. Hjartar. Farið var í skrúðgöngu frá Góðtemplarahúsinu til Fríkirkjunnar. Þar fluttu sr. Sigurgeir Sigurðsson biskup ávarp. Sr. Árelíus Níelsson predikaði. Hann var gæslumaður stúkunnar 1938. Síðar var haldinn hátíðarfundur í Góðtemplarahúsinu og var það margt gesta úr öðrum stúkum og bárust margar góðar gjafir og heillaskeyti. Sunnudaginn 12. mai var haldin barnaskemmtun í Gamla bíói og börn úr Æskunni sáu um barnatímann í útvarpinu þann dag.
   Á 75 ára afmælinu 1961 voru gæslumenn Þorvarður Örnólfsson og Ólafur F. Hjartar. Æskan hélt barnaskemmtun ásamt örðum stúkum í Austurbæjabíó og var hún vel sótt. Samkvæmt venju var svo haldin hátíðarfundur í Góðtemplarahúsinu. Sigrún Gissurardóttir sá um skemmatiatriði
   Á 90 ára afmælinu var haldinn hátíðarfundur í Templarahöllinni. Gæslumenn voru þá Sigrún Gissurardóttir, Árni Norðfjörð og Lilja Harðardóttir. Fengu mörg börn verðlaun fyrir góða fundarsókn eða embættisstörf að fundi loknum voru veitingar fyrir yngri félaga í fundarsal stúkunnar í kjallara hússins, en á annarri hæð var haldið kaffisamsæti fyrir eldri félaga og gesti. Undir borðum flutti Gissur Pálsson ræðu og rakti í stórum dráttum sögu Æskunnar.

Gæslumenn starfa í þeirri góðu trú, að það sem þeir leggja af mörkum megi bera góðan ávöxt. Ekkert veldur þeim meiri vonbrigðum en að komast að raun um að efnilegir unglingar sem voru með þeim í barnastúku, gleymdi því heiti að taka aldrei fyrsta staupið.

HEIMILDIR

Fundargerðabækur Æskunnar 1889 – okt 1956

Jón Árnason og Ingimar Jóhannesson. Ágrip af sögu Unglingareglunnar. Rvk.
      1958. Sérpr. Úr barnablaðinu Æslan.

Þingtíðindi Stórstúku Íslands1866-1980. (ýmis ár)

Einar Hannesson. Elsta æskulýðsfélagið: Æskan 90 ára. Æskan. Rv. 1976, 5-6. tbl. Bls 4-5